fimmtudagur, júní 14, 2007

Sagan í stórum dráttum

Ég var fluttur inn af Ræsi hf og seldur í gegnum Verslunarfélag V-Skaftfellinga í Vík 2/6 1954 og kostaði kr,32.562.50. Fyrsti eigandi var Einar Sverrisson. Einar notaði mig í búskap á Kaldrananesi í Mýrdal, meðal annars til að rækta upp flest túnin á jörðinni. Hann seldi mig síðar til Antons Guðlaugssonar hestamanns í Vík og þjónaði ég honum í mörg ár. Einn góðan veðurdag dreymdi Einar draum þar sem gamli Fahr-inn kom og talaði við hann og kvartaði yfir því að sér væri ekki launuð vel unnin störf. Þegar Einar vaknaði hringdi hann í Anton og spurði hann hvernig væri með Fahr-inn? Anton svaraði því að hann væri hættur að nota hann og hefði farið með hann í brotajárnshaug austan við Vík nokkrum dögum áður. Einar spurði hvort hann mætti þá ekki fara og hirða hann og var það velkomið. Einar fór þá strax um kvöldið ásamt tveimur öðrum, Einari Steinssyni dóttursyni sínum og Ólafi Guðjónssyni vini sínum í Presthúsum, og sóttu þeir mig og fórum með mig aftur út að Kaldrananesi. Þar var ég þangað til að fór að líða að því að jörðin væri seld, þá sótti Einar yngri mig og fékk að geyma mig á Hamrafelli í Mosfellsbæ þangað til að hann gæti farið að gera mér eitthvað til góða.
2004 fékk hann pláss fyrir mig úti í Hafnarfirði en af ýmsum orsökum varð minna úr framkvæmdum en ætlað var og ég varð að bíða. Þegar Einar flutti til Austurríkis 2006 var ákveðið að taka mig með og nú bíð ég þess að verða tekinn inn í bílskúrinn þannig að endurbætur geti hafist.

Engin ummæli: